STFS semur við ríkið fyrir HSS
Starfsmannafélag Suðurnesja hefur skrifað undir samning við ríkið vegna félagsmanna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Samningurinn gildir til 31. mars 2014 og er á svipuðum nótum og aðrir ríkissamningar sem gerðir hafa verið undanfarið.
Samningurinn verður kynntur félagsmönnum í fundarsal HSS þriðjudaginn 14. júní kl. 15.30 og að kynningu lokinni verður greitt um hann atkvæði.
Öll stjórn Starfsmannafélagsins var endurkjörin á aðalfundi félagsins sem haldinn var á mánudagskvöldið. Við það tækifæri tilkynnti Ragnar Örn Pétursson að þetta kjörtímabil yrði hans síðasta sem formaður félagsins en að því loknu hefur hann setið í stól formanns í 14 ár eða frá árinu 1999.
Félagið á nú í samningaviðræðum hjá Sáttasemjara við Samband sveitarfélaga og eins standa yfir samningafundir við HS orku og HS veitur fyrir félagsmenn STFS. Þá er gert ráð fyrir að samningaviðræður vegna félagsmanna hjá SBK hefjist öðru hvoru megin við helgina.