STFS aftur í kjaraviðræður
Viðræður um nýjan kjarasamning Starfsmannafélags Suðurnesja og launanefndar sveitarfélaga hefjast í byrjun næsta mánaðar. Starfsmannafélagið íhugaði verkfallsboðun þar sem ekkert hafði heyrst frá launanefnd sveitarfélaga en kjarasamningur þeirra rann út í mars.
Fulltrúar STFS og launanefndarinnar hittust á sáttafundi í gær. Ragnar Örn Pétursson, formaður STFS, segir í samtali við Ríkisútvarpið að ákveðið hafi verið að vinna að ófrágengnum málum úr eldri kjarasamningi fram til loka mánaðarins en þá hittast fulltrúar hvors um sig á fundi. Eftir það hefjist viðræður um nýjan kjarasamning en fundur er boðaður hjá ríkissáttasemjara í byrjun ágúst. Ragnar Örn segir að þá verði staðan metin en STFS hafnar starfsmati sveitarfélaganna og krefst í staðinn 4% hækkunar til að laga til launaflokka.
Starfsmannafélag Garðabæjar hafði áður hafnað starfsmatinu og samið um 3% hækkun. Ragnar Örn segist bjartsýnn á að Suðurnesjamenn nái kröfum sínum fram.