Stela perum úr jólaskrauti
Eldri borgarar í Reykjanesbæ hafa orðið fyrir töluverðum búsifjum á Aðventunni þar sem hópur unglinga hefur farið ránshendi um jólaskraut og stolið perum úr útijólaseríum á jarðhæð.
Aðstandandi konu sem býr í fjölbýlishúsi í Keflavík sagði í ábendingu til Víkurfrétta að í fyrra hafi fjölmörgum perum verið stolið úr ljósaseríunni hennar og þurfti því að kaupa nýjar í þeirra stað. Vonuðust þau til þess að viðkomandi væru vaxin uppúr þess konar háttalagi í ár og settu ljósin upp að nýju um helgina.
Gleðin að ljósunum var ekki langvinn því í morgun voru allar perurnar horfnar á ný og gafst konan því upp á að lýsa upp jólin þetta sinnið.
Eins hefur mikið borið á því að perur hverfi af seríum að Kirkjuvegi 1, Hornbjargi. Íbúi setti sig í samband við Víkurfréttir og sagði að í nótt hefði 45 perum verið stolið, en frá upphafi aðventu hafi yfir 100 ljósaperur horfið.
Fyrir utan þá staðreynd að þjófnaður er brot á almennum hegningarlögum er erfitt að ajá hvernig nokkur hefur sál í sér til að skemma jólaskraut fyrir bláókunnugu fólki og kasta þannig skugga á gleðina sem ríkir jafnan á þessum tíma.
Er vonandi að þeir taki til sín sem eigi.