Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Steinþór fékk Lundann 2005
Fimmtudagur 24. nóvember 2005 kl. 14:04

Steinþór fékk Lundann 2005

Samhliða Lundakvöldi Kiwanisklúbbsins Keilis var ákveðið að árlega yrði veittur gripur til einstaklings sem að mati nefndar hefur látið gott af sér leiða og/eða unnið óeigingjarnt starf í þágu bæjarbúa og/eða bæjarfélagsins Reykjanesbæjar. Lundinn 2005 var afhentur á Lundakvöldi Keilis 4. nóvember s.l.

Lundinn var fyrst afhentur árið 2002 og þá hlutu hann þeir Vilhjálmur Þorleifsson og Óskar Ívarsson starfsmenn Áhaldahúss Reykjanesbæjar sem höfðu unnið í áratugi við að fegra bæinn.

Árið 2003 hlaut Lundann Ólafur Oddur Jónsson sóknarprestur í Keflavíkursókn sem í mörg ár hefur haldið uppi umræðum og fræðslu gegn sjálfsvígum.

Tómas Knútsson hlaut Lundann árið 2004, en Tómas setti á fót Bláa herinn sem hefur unnið ötullega við að hreinsa strandlengjuna og þá hefur hann stjórnað Sportköfunarskóla Íslands.

Verðlaunagripurinn er uppstoppaður Lundi á steini ásamt verðlaunaplötu og skjali. Nefndinni, sem í sitja, Ragnar Örn Pétursson, Ævar Guðmundsson og Halldór Guðmundsson, bárust fjölmargar tillögur um einstaklinga sem allir voru vel að því að komnir að fá þessi verðlaun í ár.

Nefndin var sammála um að Lundann 2005 skyldi hljóta Steinþór Jónsson hótelstjóri og bæjarfulltrúi. Steinþór hefur látið margt gott af sér leiða og unnið óeigingjarnt starf fyrir bæjarfélagið. Steinþór var upphafsmaður að lýsingu Bergsins og síðan hátíðinni Ljósanótt sem fylgdi í kjölfarið. Ljósanótt í Reykjanesbæ er ein af stærri og vinsælustu menningarhátíðum sem haldnar eru hér á landi.

Öll þau ár sem Ljósanótt hefur verið haldin hefur Steinþór verið formaður undirbúningsnefndar og sú vinna hans hefur verið í sjálfboðamennsku. Steinþór er ásamt fleirum aðalhvatamaður að tvöföldun Reykjanesbrautar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024