STEFNUMÓTUN Í MÁLEFNUM ELDRI BORGARA
Á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar sl. þriðjudag var samþykkt samhljóða svohljóðandi tillaga í málefnum eldri borgara í bæjarfélaginu en flutningsmenn hennar voru þau Kjartan Már Kjartansson og Björk Guðjónsdóttir:„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að fela Fjölskyldu- og félagsmálaráði að hefja vinnu við gerð stefnumótunar í málefnum eldri borgara. Kanna þarf viðhorf eldri borgara til heilbrigðismála, tómstundamála og félagslegrar þjónustu. Vinnunni verði lokið fyrir 1. apríl 1999.“Í greinargerð sem fylgdi tillögunni segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi samþykkt að árið 1999 verði ár aldraðra og skuli yfirskrift þess vera „Þjóðfélag fyrir fólk á öllum aldri“. Við stefnumótunarvinnuna verði haft samráð við hina ýmsu aðila sem tengjast og gætu tengst málefnum eldri borgara í sveitarfélaginu.Flutningsmenn tillögunnar lögðu ríka áherslu á að haft verði samband við alla hugsanlega aðila sem gætu komið að þessu máli og nefndu t.a.m. líkamsræktarstöðvar í því samhengi. Þar væru hugsanlega lausir tímar á ákveðnum tímum dagsins sem e.t.v. gætu höfðað til þessa hóps. Fögnuðu aðrir fundarmenn tillögunni og var hún eins og áður segir samþykkt samhljóða.