Stefnt fyrir þriggja milljóna króna fjárdrátt
Fyrrum gjaldkeri Íþróttabandalags Suðurnesja hefur verið ákærður fyrir að hafa dregið að sér samtals 3.064.323 krónur sem hún flutti í heimildarleysi með 11 færslum af bankareikningum Íþróttabandalagsins yfir á bankareikning sinn hjá Glitni. Það er Lögreglustjórinn Suðurnesjum sem höfðar málið en það var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Millifærslurnar ellefu voru gerðar frá því í lok desember árið 2007 og fram í maí árið 2008. Námu þær allt frá rúmum fimmtíu þúsund krónum upp í tæpa hálfa milljón króna.
Þá gerir lögfræðingur fyrir hönd Íþróttabandalags Suðurnesja einkaréttarkröfu um að ákærða verði dæmd til að greiða umrædda upphæð auk kostnaðar við lögfræðiaðstoð að mati réttarins.
www.visir.is greinir frá þessu.