Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stefnir í mestu lokanir á HSS í sumar
Miðvikudagur 28. mars 2018 kl. 09:40

Stefnir í mestu lokanir á HSS í sumar

-Stærsta vandamálið að fá heilbrigðisstarfsfólk, segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Allt stefnir í mestu sumarlokanir í sögu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja nú í sumar vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki. Að sögn Halldórs Jónssonar, forstjóra HSS á enn eftir að manna 72 vaktir vegna sumarafleysinga. „Peningar eru ekki stærsta atriðið í þessu heldur vöntun á fólki. Miðað við þetta munum við þurfa loka meira en nokkru sinni fyrr. Þessi staða hefur aldrei verið svona slæm,“ segir Halldór.

Forstjóri HSS greindi frá þessari stöðu á vetrarfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sl. föstudag. Staðan á stofnuninni er erfið sem hefur ekki fengið framlög frá ríki í takt við gríðarlega mannfjölgun á Suðurnesjum. Frá árinu 2004 til 2018 er fólksfjölgun 52% og aukningin frá árinu 2013 til 2017 er 22% eða sem nemur 4600 íbúum. HSS er keyrð á aukavöktum starfsfólks til að sinna bráðavöktum allar sólarhringinn. Stofnunin glímir við fleiri vandræði eins og húsnæði sem er löngu sprungið og uppsafnaða þörf á tækjakaupum fyrir 100-200 milljónir kr. Halldór segir að mikilvæg tæki eins og röngten- og sneiðmyndatæki séu að komast á tíma og nauðsynlegt sé að endurnýja þau fljótlega. „Aðstaðan í heild er sprungin. Þá er þróunin í ráðningum starfsfólk mikið áhyggjuefni. Vöntunin vex og vex og það er sífellt erfiðara að fá fólk. Við erum ekki að tala eingöngu um lækna heldur einnig hjúkrunarfræðinga,“ segir Halldór sem gagnrýnir harkalega vöntun á stefnumótum í starfseminni fyrir öll heilbrigðisumdæmi á landinu og að hún sé byggð á heildstæðri stefnu fyrir landið allt. Ekki er vitað hvernig fjármagni sé útdeilt og á hvaða forsendum. Áætlun vanti um húsnæði, tæki og búnað. Húsnæðismál HSS þurfi til að mynda að fara í naflaskoðun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þjónustuþörfin á HSS hefur vaxið í takti við mannfjölgun á svæðinu en aukningin á milli áranna 2016 og 2017 nemur 47% í sálfélagslegri þjónustu, 38% í síðdegis- og helgarmótttöku lækna, 24% í hjúkrunarmóttöku og 10% í slysa- og bráðamóttöku.

„Umræðan á ekki að snúast aðallega um kostnað og peninga. Hún á að fjalla um forsendur, stefnumótum, skipulag og framkvæmd þeirrar þjónustu sem samkomulag verður um að sé veitt,“ segir Halldór.

Halldór  Jónsson, forstjóri HSS.

8,5 milljónir á dag

Tæplega 300 manns starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í um 190 stöðugildum. Kostnaður við rekstur HSS árið 2017 nam 2,8 milljörðum og áætlun fyrir 2018 gerir ráð fyrir 3,1 milljarði. Það jafngildir um 8,5 milljónum króna sem stofnunin kostar á dag.

Í grein Silju Daggar Gunnarsdóttur, alþingismanns í blaðinu greinir hún frá því að HSS hafi fengið 54 millj. kr.til viðbótar vegna starfseminnar 2018. Af þeirri tölu eru 15 m.kr. ætlaðar til geðheilbrigðismála og 39 m.kr. til heilsugæslunnar.