Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Startup Tourism – nýr viðskiptahraðall fyrir sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu
Frá undirskrift samstarfssamnings um Startup Tourism. F.v.: Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri ISAVIA, Björn Óli Hauksson, forstjóri ISAVIA, Oddur Sturluson, verkefnastjóri hjá Klak Innovit, Salóme Guðmundsdóttir,
Fimmtudagur 5. nóvember 2015 kl. 06:00

Startup Tourism – nýr viðskiptahraðall fyrir sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu

Klak Innovit hefur í samstarfi við Íslandsbanka, Isavia, Vodafone og Bláa lónið ásamt Íslenska ferðaklasanum komið á fót nýjum viðskiptahraðli með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu. Allt að tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku í hraðalinn sem hefst 1. febrúar 2016. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna þjálfun, fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn frá hinum ýsmu sérfræðingum, fjárfestum og reyndum frumkvöðlum við að þróa viðskiptahugmyndir sínar áfram.

Hraðallinn er settur upp að erlendri fyrirmynd en sambærilegir viðskiptahraðlar eru starfandi um allan heim. Hérlendis eru þegar starfandi tveir aðrir hraðlar, Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Báðir hafa þeir gefið góða raun en samtals hafa 54 fyrirtæki tekið þátt í þeim frá árinu 2012.
 
Markmið Startup Tourism verkefnisins er að efla frumkvöðlastarf innan greinarinnar og ýta undir atvinnu- og verðmætasköpun á Íslandi. Verkefninu er ætlað að stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna í kringum landið, allt árið um kring.  Verkefninu er ekki síður ætlað að miðla þeirri þekkingu sem orðið hefur til á undanförnum árum og áratugum og efna til umræðu um helstu áskoranir og tækifæri innan greinarinnar.
 
Hraðallinn sjálfur hefst 1. febrúar 2016 og fer fram í Reykjavík. Í nóvember og desember verða haldnar stuttar vinnusmiðjur á Egilsstöðum, Ísafirði, Akureyri, Hvolsvelli og í Reykjanesbæ. Opið er fyrir umsóknir bæði í vinnusmiðjur og viðskiptahraðalinn á vefsíðu verkefnisins, startuptourism.is

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024