Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 4. maí 2004 kl. 17:10

Starfsöryggi 25 starfsmanna ógnað

Í yfirlýsingu frá Íslenskum markaði hf. er þeirri ákvörðun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. að segja upp húsaleigusamningi fyrirtækisins í Leifsstöð harðlega mótmælt. Í yfirlýsingunni segir að uppsögnin sé aðför að meira en þriggja áratuga farsælum rekstri Íslensks markaðar og að með aðgerðunum sé starfsöryggi 25 starfsmanna fyrirtækisins ógnað. 
Ennfremur kemur fram í yfirlýsingunni að yfirlýsingar forráðamanna FLE í fjölmiðlum sýni svo ekki verður um villst að ætlun þeirra sé að bola Íslenskum markaði út úr flugstöðinni.
Forráðamenn Íslensks markaðar hafa sent samkeppnisyfirvöldum bréf þar sem farið er fram á að þau beiti íhlutun og stjórnvaldssektum gegn FLE vegna ólöglegra aðgerða flugstöðvarinnar.


Yfirlýsing frá Íslenskum markaði hf.
4. maí 2004

Lögbrotum FLE harðlega mótmælt

Vegna fréttaflutnings um samskipti Íslensks markaðar hf. og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) vilja forráðamenn Íslensks markaðar koma eftirfarandi á framfæri.

Forráðamenn Íslensks markaðar mótmæla harðlega þeirri ákvörðun FLE að segja upp samningum fyrirtækisins um leigu á verslunarrými í flugstöðinni, sem tilkynnt var 30. apríl sl. Uppsögnin er aðför að meira en þriggja áratuga farsælum rekstri Íslensks markaðar og ógnar starfsöryggi 25 starfsmanna fyrirtækisins. Að auki gengur uppsögnin þvert gegn ákvörðunum samkeppnisyfirvalda, sem staðfestar voru með dómi Hæstaréttar þann 29. apríl sl. Með því að segja aðeins Íslenskum markaði upp aðstöðu í flugstöðinni en ekki öðrum leigutökum, er FLE enn fremur að misnota yfirburðastöðu sína og mismuna rekstraraðilum, sem er brot á samkeppnislögum.

Samkeppnisráð ákvað í janúar árið 2003 að FLE skyldi upplýsa Samkeppnisstofnun um hvernig staðið yrði að útleigu á verslunarrými í flugstöðinni. Framkvæmd forvals sem FLE efndi til árið 2002 skyldi frestað þar til Samkeppnisstofnun hefði fengið umræddar upplýsingar. Ljóst er að með uppsögn á leigusamningi við Íslenskan markað hefur verið brotið gegn áðurnefndri ákvörðun samkeppnisráðs, sem síðar var staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. FLE hefur haldið áfram með forvalsvinnu og hunsað að láta Samkeppnisstofnun í té þær upplýsingar sem krafist var.

Yfirlýsingar forráðamanna FLE í fjölmiðlum að undanförnu sýna svo ekki verður um villst að ætlun þeirra er að bola Íslenskum markaði út úr flugstöðinni. Einnig er greinilegt að uppsögnin þjónar þeim tilgangi að „refsa“ Íslenskum markaði fyrir það eitt að hafa leitað réttar síns og freistað þess að koma í veg fyrir lögbrot. Uppsögnin var tilkynnt aðeins sólarhring eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm sem staðfestir niðurstöðu samkeppnisyfirvalda, en veitir FLE tiltekið svigrúm til að ráðstafa húsnæði flugstöðvarinnar.

Forráðamenn Íslensks markaðar hafa sent samkeppnisyfirvöldum bréf þar sem farið er fram á að þau beiti íhlutun og stjórnvaldssektum gegn FLE vegna ólöglegra aðgerða flugstöðvarinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024