Starfsmenn Vísis fá tvöfalda desemberuppbót
Útgerðar-, framleiðslu- og sölufyrirtækið Vísir hf. í Grindavík hefur ákveðið að greiða starfsfólki sínu í landi tvöfalda desemberuppbót. Í tilkynningu frá Pétri Hafsteini Pálssyni, framkvæmdastjóra Vísis hf., segir að þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi hafi fyrirtækinu gengið vel á árinu og vill stjórnin þakka starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf.
,,Sem fyrr er það gott starfsfólk sem er lykillinn að góðum árangri fyrirtækisins. Við viljum nota tækifærið og óska starfsfólki og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar," segir Pétur jafnframt.
Full desemberuppbót er kr. 45.600,-. Vísir mun því greiða þeim sem eiga rétt á fullri uppbót kr. 91.200,-.
Höfuðstöðvar Vísis eru í Grindavík. Þar er eingöngu saltfiskframleiðsla á svokölluðum SPIG-fiski. Unnin eru um 6.000 tonn af þorski árlega. Þar vinna um 35 manns í verkuninni og um 15 manns á skrifstofunni að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.
Af grindavik.is