Starfsmenn Varnarmálastofnunnar til Landhelgisgæslunnar
Flestir starfsmenn Varnarmálastofnunar sem leggja á niður um áramót flytjast til Landhelgisgæslunnar sem tekur við verkefnum stofnunarinnar til bráðabrigða ásamt ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu.
Eftir fund utanríkismálanefndar Alþingis kl. 15:00 í dag sagði Árni Þór Sigurðsson, að fyrir lægi samkomulag á milli utanríkis- og dómsmálaráðherra um ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar. Hluti þeirra, sérstaklega sem lytu að þjóðaröryggismálum, færu til Ríkislögreglustjóra. Utanríkisráðuneytið héldi áfram með utanríkispólitíska þætti líkt og milliríkjasamstarf og samningagerð.
„Önnur verkefni munu flytjast til Landhelgisgæslunnar til bráðbrigða, þar með talið starfsmennirnir af því að það var talið mikilvægt að tryggja réttarstöðu þeirra. Þá er þetta komið undir innanríkisráðuneytið sem að verður til við sameiningu dómsmála- og samgönguráðuneyta,“ segir Árni Þór.
Fyrir 15. mars muni svo liggja fyrir frekari úttekt á því hvort að einhverjum verkefnum verði ráðstafað annað en til Landhelgisgæslunnar. Þar sé ekki síst verið að líta til flugmálayfirvalda að sögn Árna Þórs. Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins.
Aðsetur Varnarmálastofnunar Íslands sem nú verður á forræði Landhelgisgæslu Íslands. Kannski fyrsta skrefið í að starfsemi LHG flytjist alfarið til Keflavíkurflugvallar, enda landrými og húsakostur allur til staðar.