Starfsmenn Toppsins endurráðnir
Toppurinn ehf. hefur endurráðið flesta starfsmenn sína aftur en þeim var öllum sagt upp í síðustu viku. Fjórum starfsmönnum var sagt upp en ekki hafa verið teknar ákveðanir um frekari fækkun starfsfólks. Að sögn Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Toppsins ehf. er fyrirtækið enn að vinna í verkefnaöflun en fyrirtækið lýkur þremur stórum verkefnum nú á næstunni en ekki fengið næg verkefni. „Við höfum ekki fengið greitt fyrir öll verkefnin ennþá en okkur hefur tekist að leysa vandan sem upp kom vegna launa.“ Fyrirtækið hefur krafist skriflegra svara frá Sandgerðisbæ en bærinn ákvað að taka tilboði ÍAV í endurgerð Stafnesvegar. „Við gerðum tilboð í endurgerð Stafnesvegar og áttum lægsta tilboð og gerðum því ráð fyrir að fá það verk. Sandgerðisbær samdi hins vegar við ÍAV um verkið sem átti þriðja lægsta tilboð. Við höfum enn ekki fengið nein svör frá Sandgerðisbæ en erum að afla okkur upplýsinga um málið“, segir Vilhjálmur. Rekstur fyrirtækisins er aftur kominn í jafnvægi en þetta var í fyrsta skipti sem launagreiðslur bregðast en starfsmönnum fyrirtækisins var gerð ljós staðan á starfsmannafundi fyrir helgi.