Starfsmenn HSS slegnir: „Trúi þessu ekki“ segir Ragnheiður þingkona
Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja voru slegnir á starfsmannafundi í gær en þá gerði Sigríður Snærbjörnsdóttir grein fyrir fyrirhuguðum niðurskurði á rekstri stofnunarinnar í nýjum fjárlögum ríkisins en hann nemur tæplega 25% eða 400 milljónir króna.
Starfsmenn HSS sem hafa mátt þola óvissu og niðurskurð undanfarin ár áttu ekki von á enn einu reiðarslaginu og spurðu hvað ráðherra gengi til. Sigríður sagði að núverandi ráðherra hefði tekið við þessu máli frá fráfarandi heilbrigðisráðherra og að hún gerði sér vonir um að þetta væri ekki endanlegt ákvörðun.
Í fjárlögum er gert ráð fyrir litlum niðurskurði á sjúkrahúsinu á Akranesi, í heimabyggð núverandi ráðherra.
Sigurður Þór Sigurðarson yfirlæknir sagði að það yrði mikil þjónustuskerðing á HSS auk þess sem tugir starfa myndu tapast. „Þetta er bara orðið einelti gagnvart Suðurnesjunum. Við verðum að vona að okkar stjórnmálamenn komi okkur til hjálpar“.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona Suðurkjördæmis sagði þessar fréttir ömurlegar og að við þetta yrði ekki unað. „Ég bara trúði þessu ekki þegar ég sá þetta í fjárlögunum. Ég veit ekki hvað við Suðurnesjamenn eigum að þurfa að þola“, sagði þinkonan sem mun óska eftir umræðu um málið á þingi eftir helgina.
Sigríður framkvæmdastjóri, Sigurður læknir og Bryndís Sævarsdóttir ræða saman eftir starfsmannafundinn í gær.