Starfsmannafélag Suðurnesja semur við sveitarfélögin
Starfsmannafélag Suðurnesja skrifaði í gærkvöldi undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn eru á svipuðum nótum og Kjölur og Starfsgreinasambandið skrifuðu undir á fimmtudaginn.
Samningurinn gildir frá 1. maí s.l. og til 30. júní 2014. Hann felur í sér 50 þúsund króna eingreiðslu við samþykkt og starfsmenn sem eru við störf þann 1. febrúar n.k. fá 25 þúsund króna eingreiðslu. Þá koma til hækkanir á orlofsuppbót og desemberuppbót. Prósentuhækkanir koma 1. mars 2012, 2013 og 2014.
Ein helsta ástæðan fyrir því að félagið hafði ekki náð samningum fyrr er, að það taldi að 34 þúsund króna viðmiði sem félög á almenna markaðnum og hjá ríkinu fengu náðist ekki með þeim samningi sem félaginu stóð til boða og vantaði verulega þar á. Með því að endurskoða þá launatöflu sem í boði var tókst að gera á henni breytingar til að ná þessu marki fyrir lægst launaða fólkið. Því má segja nú að þessi samningur séu á svipuðum nótum og á almenna markaðnum og hjá ríki og borg.
Samningurinn verður á næstu dögum kynntur félagsmönnum og greitt um hann atkvæði.