Starfsmaður Notts County staðfestir viðræður við Guðjón
Samkvæmt starfsmanni Notts County, sem Víkurfréttir höfðu samband við í dag, þá hafa farið fram fundir með hugsanlegum knattspyrnustjórum fyrir liðið. Hann tjáði Víkurfréttum það að þessir fundir hefðu farið fram utan Nottingham og sagði hann Guðjón vera einn af þeim sem rætt var við. Starfsmaðurinn vildi ekki tjá sig meira um málið.
Þegar Víkurfréttir höfðu samband við Guðjón Þórðarson í gær þá sagðist hann ekki vera í viðræðum við annað lið. Hann ítrekaði það síðan í fréttatíma Stöðvar 2 í gær. Miðað við þær fréttir sem berast frá Nottingham Evening Post og starfsmanni Notts County þá laug Guðjón Þórðarson ítrekað að öllum fjölmiðlum á Íslandi. Hann sagði einnig við Stöð 2 í gær að hann hefði „ekkert sérstakan áhuga“ á Notts County.
Áhangendur Notts County ræða þessi mál á nokkrum spjallvefjum en þeir telja Guðjón Þórðarson fýsilegan kost. Nokkrir ganga enn lengra og telja það fullvíst að hann verði næsti knattspyrnustjóri liðsins.
Í frétt sem birt var á áhangendasíðu Notts County kemur fram að ef fjármál félagsins ráða ekki við Guðjón Þórðarson þá telja breskir knattspyrnusérfræðingar að fyrrverandi knattspyrnustjóri Walsall, Ray Gordon, verði ráðin knattspyrnustjóri Notts County.
VF-mynd: Frá undirskrift samninga við Keflavík