Starfsleyfi bræðslunnar brotið
Fiskimjölsverksmiðjan í Grindavík hefur brotið gegn starfsleyfi sínu að mati Hollustuverndar ríkisins. Stjórnendum verður sett ákveðin skilyrði fyrir frekari vinnslu, sérstaklega þegar kolmunni er unninn.Óþefur frá verksmiðjunni hefur verið að angra Grindvíkinga síðan í fyrradag. Kvörtunum hefur rignt yfir yfirvöld vegna málsins. Verið er að bræða kolmuna í Grindavík og er hann mun lyktarmeiri en t.d. loðna og síld. Þá er hreinsibúnaður bræðslunnar kominn til ára sinna, samkvæmt frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi. Bræðslu kolmunans mun ljúka í dag og þá ættu Grindvíkingar að geta dregið andann að nýju að sögn Bylgjufrétta.