Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 21. mars 2002 kl. 17:31

Starfshlaup Fjölbrautaskóla Suðurnesja á morgun

Eitt af sérkennum skólans er hið árlega Starfshlaup, Þar sem allir nemendur og starfsmenn skólans vinna saman. Starfshlaupið verður á morgun, föstudag.Í starfshlaupinu er keppt í svo til öllum greinum sem kenndar eru við skólann.
Í ár munu 9 lið taka þátt. Í hverju liði eru um það bil 45 keppendur og um 20 manns í klappliði hvers hóps. Fyrirliðar liðanna eru nemendur sem koma til með að útskrifast í vor.
Hlaupið hefst í íþróttahúsinu með mars og ýmsum íþróttaþrautum, því næst færist leikurinn í sundlaugina og á hlaupabrautina áður en farið er inn í skólann, þar sem ýmis verkefni bíða nemenda. Hlaupið endar síðan á sal skólans með söng, dans, óvæntum uppákomum og fleiru.

Starfshlaupið er einskonar boðhlaup, í staðinn fyrir kefli er húfa notuð sem gengur á milli keppenda.

Boðhlaupið byggist á tíma og hversu vel nemendur leysa hvert verkefni fyrir sig. Gefin eru stig fyrir öll verkefnin frá 1 - 10, ef lið fær 9 fyrir verkefni þá hefur liðið tapað 1 stigi og þá bætist 1 mín. við tíma liðsins. Þannig að nemendur þurfa að leysa verkefnin bæði hratt og vel. Það lið sem er með besta tímann í lok hlaupsins vinnur.

Skólinn er allur á iði frá morgni og fram eftir degi, mikið líf og fjör, þar sem nemendur og starfsmenn skólans gera sér glaðan dag í sátt og samlyndi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024