Starfsgreinakynning fyrir nemendur grunnskóla á Suðurnesjum á morgun
Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum hefur verið haldin reglulega frá árinu 2012 og verður stærri og glæsilegri með ári hverju.
Síðustu ár (að undanskildum faraldri) hefur kynningin verið hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja, haldin af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) en skipulögð af Þekkingarsetri Suðurnesja. Markmið starfsgreinakynningarinnar er að efla starfsfræðslu grunnskólanemenda í 8. – 10.bekk og stuðla að sambærilegri fræðslu fyrir aldurshópinn á svæðinu. Kynningin er einnig mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks.
Vegna mikillar velvildar fyrirtækja og einyrkja af margvíslegum toga hefur reynst afar vel að skipuleggja kynningarnar. Margir aðilar hafa tekið þátt ár eftir ár og gefið af sínum tíma og skipulagi. Án þessa mikla stuðnings atvinnulífsins væri svona kynning ómöguleg.
Öflug náms – og starfsfræðsla er sérstaklega mikilvæg til að auka líkur á því að nemendur velji það framhaldsnám sem þeim hugnast best. Rétt val dregur úr brottfalli úr námi sem hefur verið mikið hér á landi síðustu ár og styrkir kynning sem þessi tengsl atvinnulífs og skóla sem skiptir gríðarlegu máli. Sér í lagi þegar kemur að iðn – og starfsnámi sem og námi í tæknigreinum.
Af þeim starfsgreinum sem kynntar verða má nefna leikari, gítarsmiður, fatahönnuður, hárgreiðslumeistari, íþróttakennari, íþróttafréttamaður, skáld, ljósmóðir, bæjarstjóri og flugmaður, svo eitthvað sé nefnt.
Kynning fer fram í íþróttahúsinu í Keflavík að morgni 11. október nk.