Starfsfólki Isavia boðið upp á íslenskunámskeið í vinnutíma
Starfsfólk Isavia og dótturfélaga, sem hefur annað tungumál en íslensku að móðurmáli, getur nú sótt íslenskunámskeið í boði félagsins í vinnutíma. Námskeiðið er haldið af Isavia í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Einnig getur starfsfólk bókað sig í íslenskunám utan vinnutíma í boði Isavia kjósi það svo.
Fyrsta námskeiðið hófst þann 11. október síðastliðinn og stendur í átta vikur. Í fyrsta námshópnum eru þrettán einstaklingar af fimm þjóðernum. Þetta starfsfólk kemur úr mismunandi deildum innan Isavia samstæðunnar.
„Hugmyndin af því að bjóða starfsfólki okkar upp á íslenskunám í vinnutíma kviknaði fyrir allnokkru síðan og hefur verkefnið verið í þróun. Það var svo snemma í haust að við náðum að hnýta alla enda og koma þessu af stað,“ segir Gerður Pétursdóttir, fræðslustjóri hjá Isavia.
Gerður segir að Isavia leggi áherslu á að efla færni starfsfólks á ýmsum sviðum. Félagið vilji gefa öllu starfsfólki tækifæri til að vaxa í starfi og um leið auka veg íslenskunnar með þessum áþreifanlega hætti. „Okkur finnst mikilvægt að geta boðið upp á þessa nýjung fyrir okkar fólk. Við teljum okkur vita að þetta komi að góðu gagni fyrir okkar hóp og vonandi samfélagið í heild.“