Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Starfsfólki Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar ekki hótað
Miðvikudagur 16. júní 2004 kl. 14:32

Starfsfólki Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar ekki hótað

Starfsfólki Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar var ekki hótað líkamsmeiðingum af hálfu tveggja hælisleitenda sem eru á vegum Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ. Í Fréttablaðinu í morgun er greint frá því á forsíðu að starfsmönnum stofnunarinnar hafi verið hótað líkamsmeiðingum og lífláti og einnig var greint frá þessu í fréttum Ríkisútvarpsins.
Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri Reykjanesbæjar segir að fréttaflutningur Fréttablaðsins og Ríkisútvarpsins sé rangur hvað varðar það að starfsmönnum Félags- og fjölskylduþjónustunnar hafi verið hótað. „Við höfum ekki fengið hótanir um líkamsmeiðingar frá þessum skjólstæðingum okkar og í raun fer lítið fyrir þessu fólki hér hjá okkur. Þetta er prútt fólk og aldrei hafa komið upp vandamál sem eru stærri en við fáumst við í daglegum störfum okkar,“ sagði Hjördís í samtali við Víkurfréttir. Aðspurð sagði Hjördís að hælisleitendurnir sem um ræðir séu ekki í mótmælasvelti eins og greint hefur verið frá í fréttum. Umönnun hælisleitenda gengur vel hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustunni að sögn Hjördísar og er að mörgu leiti svipuð þeirri þjónustu sem fram fer hjá stofnuninni. „Við fáum á ári hverju hótanir af öllum stærðum og gerðum, en í þessu tilviki er um rangan fréttaflutning að ræða.“

Tólf hælisleitendur eru nú á vegum Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar í Reyjanesbæ.

Myndin: Forsíða Fréttablaðsins í dag þar sem greint er frá því að starfsfólki Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar hafi verið hótað lífláti og líkamsmeiðingum. Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri Reykjanesbæjar segir þennan fréttaflutning rangan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024