Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 2. maí 2001 kl. 09:32

Starfsfólk Vísis af launaskrá

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vísir í Grindavík tilkynnti starfsmönnum sínum á mánudag að frá og með 2. maí yrðu þeir teknir af launaskrá. Er ástæðan rekstrarstöðvun vegna hráefnisskorts sem stafar af sjómannaverkfallinu og er fólki bent á að sækja um atvinnuleysisbætur. Morgunblaðð greindi frá.
Hjálmar Sigurðsson, trúnaðarmaður starfsmanna hjá Vísi, sagði að þetta hefði komið flatt upp á starfsfólk, það hefði undanfarnar vikur unnið úr fiski sem til var en því hefði lokið um hádegi í gær. Hjálmar sagði rúmlega 40 manns hafa unnið hjá fyrirtækinu, um helmingur þess hefði verið sendur heim en á kauptryggingu fljótlega eftir að sjómannaverkfallið hófst en hinir hefðu haft vinnu áfram þar til í gær. Eftir að vinnu lauk var starfsfólkinu tilkynnt með bréfi sem sent var heim að þar sem ekkert hráefni hefði borist í tæpan mánuð yrði að tilkynna því að það yrði tekið af launaskrá frá og með miðvikudegi 2. maí. Hjálmar segir 6-7 manns vinna áfram við ýmis viðhaldsstörf hjá Vísi.
Í bréfi Péturs Hafsteins Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis, til starfsmanna Vísis segir meðal annars: "Sjómannaverkfallið hefur nú staðið í mánuð til viðbótar við þá daga sem voru í mars. Vilji eigendanna hefur verið sá að reyna eins og unnt væri að hafa starfsfólk við landvinnsluna á launum yfir þann tíma. Nú hefur verkfallið staðið lengur en svo að hægt sé að standa við þau áform. Ekkert hráefni hefur borist fyrirtækinu í tæpan mánuð og nú er búið að pakka öllum þeim fiski sem í húsinu var." Segir einnig að taka verði starfsfólk af launaskrá og er því bent á að skrá sig hjá Svæðisvinnumiðlun Reykjaness vegna atvinnuleysisbóta meðan hráefnisskortur varir vegna verkfallsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024