Starfsfólk Tjarnarsels hlaut foreldraverðlaunin
Starfsfólk leikskólans Tjarnarsels hlaut foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir verkefnið Lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi. Inga María Ingvarsdóttir leikskólastjóri veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans nú fyrir helgi. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, afhenti verðlaunin.
Í greinargerð dómnefndar segir að frá árinu 1996 til dagsins í dag hafi leikskólinn Tjarnarsel verið að þróa lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi leikskólabarna. Verkefnið byggi á því að skipuleggja stig af stigi lestrarhvetjandi umhverfi frá því að nemendurnir hefja leikskólagönguna 2ja til 3ja ára, með megin áherslu á gott aðgengi að bókum, með bókalestri og hvatningu kennara. Síðast liðin fimm ár hafi elsta árganginum
verið boðið í lok leikskóladvalarinnar upp á tíu vikna lestrar- og skriftarnámskeið sem enn sé að þróast og taka breytingum með reglulegu endurmati og þátttöku leikskólakennara og leiðbeinenda leikskólans.
„Langtímamarkmið með lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi í leikskólanum Tjarnarseli er að draga úr sérkennslu og stuðningi í grunnskóla vegna lestrarörðugleika. Markmið er að bjóða leikskólanemendum upp á leik- og námsskilyrði sem styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra og nýtist nemendum í náinni framtíð. Einnig er eitt af megin markmiðum verkefnisins að draga úr kvíða foreldra fyrir komandi grunnskólagöngu.
Aðkoma foreldra í lestrar- og skriftarnámskeiðinu felst í því að fylgjast með daglegu námi barnsins og sjá til þess að þau komi með námsgögnin í leikskólann. Áhersla er lögð á að upplýsa foreldra um framvindu námsins svo þeir geti stutt börnin sín og leikskólann sem best.
Það var samdóma állit dómnefndar að hér er gríðarlega metnaðarfullt verkefni á ferðinni þar undirbúnigur og úrvinnsla hefur verið unnin af mikilli kostgæfni og tryggt að verkefnið hafi náð að festa sig í sessi í skólasamfélaginu, " segir í umsögninni.
Mynd/elg: Börnin á Tjarnarseli í nýlegri vettvangsferð.