Starfsfólk HSS kynnti tólf verkefni á samráðsfundi
Unnið að þróun starfseminnar um leið og vaktin hefur verið staðin.
„Þrátt fyrir kreppu og erfiðar aðstæður undanfarin ár er óhætt að segja að starfsfólk HSS hafi heldur betur unnið að þróun starfseminnar um leið og vaktin hefur verið staðin,“ segir Þórunn Benediktsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSS en árlegur fundur hjúkrunarstjórnenda á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn síðastliðinn föstudag á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
„Um leið og fundir þessir eru til að efla samstöðu hjúkrunarstjórnenda svæðanna eru jafnframt kynnt þau verkefni sem eru í gangi á hverju svæði.
Á fundinum kynntu starfsmenn HSS tólf verkefni sem unnin hafa verið undafarna mánuði/ár. Ljóst er af þeirri kynningu sem fram fór að mikill metnaður er meðal starfsmanna HSS að þjóna svæðinu sem best þrátt fyrir bágan fjárhag nú um stundir. Að loknum umræðum, fróðlegum erindum og frábærri kræklingasúpu í boði Bryndísar Sævarsdóttur yfirhjúkrunarfræðings og kræklingabónda, matreitt að hætti meistarakokksins, Sigríðar Magnúsdóttur yfirmatráðs, flutti heimakonan Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ, skemmtilegt erindi sem fjallaði um hvernig maður finnur sína réttu hillu í lífinu. Góður dagur endaði svo með því að fundarmönnum var boðið í kynningarferð í nokkrar af þeim verslunum í bænum sem selja hönnun íbúa á Suðurnesjum.
Hægt er að kynna sér verkefnin á heimsíðu HSS: www.hss.is
Keflvíkingurinn Árelía Eydís flutti skemmtilegt erindi á kynningunni.
Tólf verkefni innan HSS voru kynnt á samráðsfundinum.