Starfsemin hefur skilað góðum árangri
-atvinnurekendur jákvæðir
Atvinnurekendur eru jákvæðir í garð þeirra einstaklinga sem hafa áhuga á að fara í starfsþjálfun og hafa verið í starfsendurhæfingu að sögn Elfu Hrundar Guttormsdóttur ráðgjafa en alls starfa þrír ráðgjafar hjá VIRK á Reykjanesi.
Þjónustan miðar að því að auka vinnugetu og er ætluð þeim sem stefna aftur út á vinnumarkað en heildarfjöldi þeirra sem leitað hafa til virk er 526 þar af 150 sem eru í reglulegum viðtölum og eftirfylgd og 266 sem hafa útskrifast. Alls hafa 110 hætt þjónustu.
Starfsemin hefur skilað góðum árangri að mati Elfu Hrundar.
„Framfærslustaða þeirra sem nýtt hafa sér þjónustu VIRK á landsvísu var í árslok 2014 þannig að 64% þeirra eru með laun á vinnumarkaði, í virkri atvinnuleit eða á námslánum.
Einstaklingar sem koma í ráðgjöf til VIRK eiga kost á því að prófa sig í starfi á almennum vinnumarkaði. Í flestum tilfellum hafa einstaklingar verið í starfsendurhæfingu hjá Samvinnu á vegum VIRK og ráðgjafar hjá Samvinnu finna starf fyrir þá einstaklinga sem hafa áhuga á því að fara í starfsþjálfun. Í sumum tilfellum hafa einstaklingar fengið vinnu í framhaldinu en það er ekki markmiðið með starfsþjálfuninni”, segir Elfa Hrund sem segir það jákvætt þegar einstaklingar sem hafa ekki mikla trú á því að eiga afturkvæmt á vinnumarkað fá vinnu eftir að hafa prófað sig í starfi.
„Mín upplifun sem ráðgjafi á Reykjanesi er sú að atvinnurekendur eru mjög jákvæðir í garð þeirra sem þurfa að fá tækifæri til að prófa sig í starfi. Atvinnurekendur taka vel á móti einstaklingunum og viðmótið er hlýlegt í garð þeirra sem koma tímabundið í starfsþjálfun. Það græða allir á þessu samstarfi, vinnustaðurinn fær tækifæri til að kynnast einstaklingnum og vera honum innan handar í ákveðinn tíma – einstaklingurinn fær tækifæri til að prófa sig í starfi og samfélagið fær í flestum tilfellum virkari einstaklinga til að taka þátt í mótun þess.
Það getur skipt miklu máli fyrir einstakling sem hefur þurft að hætta að vinna vegna heilsubrests eða er kominn á aldur að fá vinnu sem hentar. Þá verða starfslokin mun jákvæðari fyrir vikið.”