Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Starfsemi Myllubakkaskóla  dreifist víða um bæinn
3. og 4. bekkur Myllubakkaskóla munu sækja nám í elsta skóla Reykjanesbæjar, gamla barnaskólanum við Skólaveg.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 5. nóvember 2021 kl. 12:11

Starfsemi Myllubakkaskóla dreifist víða um bæinn

Breytingar og endurbætur á húsnæði skólans vegna myglu gætu kostað nærri milljarði króna

Starfsemi Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ verður flutt úr byggingum skólans en þær elstu eru sjötíu ára.  Mygla hefur fundist víða í húsnæði skólans og starfsmenn þurft að fara í veikindafrí af þeim sökum. Einhverjir nemendur hafa einnig fundið fyrir veikindum vegna myglunnar. Húsnæðið uppfyllir ekki heilsufarslegar kröfur. Niðurstaða úr vinnu tveggja starfshópa verður var kynnt bæjarráði Reykjanesbæjar í gær sem samþykkti tillögu um að færa skólastarf í annað húsnæði víða í bæjarfélaginu. 

Verkfræðistofan Efla hefur að undanförnu unnið að því að rannsaka skemmdirnar og ástand skólans en niðurstaða úr þeirri vinnu liggur ekki fyrir fyrr en í lok nóvember. Ljóst er að breytingar og endurbætur á þessum elsta starfandi grunnskóla Reykjanesbæjar munu kosta mikla peninga, nokkur hundruð milljónir að minnsta kosti en mjög líklega nærri milljarði króna. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segir að verði sú ákvörðun tekin að endurbyggja Myllubakkaskóla verði tækifærið hugsanlega notað til að breyta og endurbæta skólahúsnæðið. Í Myllubakkaskóla hófst skólastarfsemi árið 1952 og hefur nokkrum sinnum verið byggt við skólann í gegnum tíðina.

Verið er að undirbúa húsakynnin og er gert ráð fyrir að kennsla í Myllubakkaskóla hætti um miðan mánuðinn og hefjist 17. nóvember en starfsdagar verða 15. og 16. nóv. 

Yngstu bekkirnir 1. og 2. bekkur verða í færanlegum kennslustofum á skólalóð Myllubakkaskóla. 3.-4. bekkur verður í gamla barnaskólanum við Skólaveg, 5.-7. bekkur fer í skrifstofuhúsnæði fyrir ofan Bónus að Túngötu 1 og elsta stigið, 8.-10. bekkur fer í húsnæði Akademíunnar og Reykjaneshöllina. Þá verður Frístund í gamla barnaskólanum við Skólaveg.

Breytingar verða líka á ýmsum tengdum þáttum eins og frímínútum, hádegismat, íþrótta- og sundtímum.

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs segir að þrátt fyrir þessa sérstöku stöðu segir hann jákvæðni ríkja og starfsfólk og stjórnendur taki á málinu lausnarmiðað og sjái líka tækifæri í breytingunum í þessum elsta starfandi grunnskóla Reykjanesbæjar.