Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Starfsemi Keflavíkurflugvallar kolefnislaus árið 2030
Isavia hefur prófað sig áfram með notkun repjuolíu á tæki og hafa þær prófanir gefið góða raun. VF-mynd: Hilmar Bragi
Miðvikudagur 10. nóvember 2021 kl. 11:07

Starfsemi Keflavíkurflugvallar kolefnislaus árið 2030

Starfsemi Keflavíkurflugvallar verður kolefnislaus  árið 2030 samkvæmt nýrri sjálfbærnistefnu Isavia. Það er áratug á undan áætlun íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi og tveimur áratugum á undan NetZero-skuldbindingu Evrópudeildar Alþjóðsamtaka flugvalla (ACI Europe), sem Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undirritaði ásamt forstjórum 194 annarra flugvalla í Evrópu í júní 2019. Þetta kemur fram í frétt frá Isavia.

„Við höfum lagt mikla áherslu á umhverfismál og samfélagslega ábyrgð í okkar rekstri,“ segir Sveinbjörn. „Frá árinu 2015 höfum við markvisst unnið að því að minnka kolefnisútblástur okkar og erum m.a. að vinna að 3. stigi af sex í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation). Við höfum kortlagt kolefnisspor okkar, gripið til aðgerða til að minnka það og sett okkur markmið um samdrátt. Eftir ítarlega yfirferð á okkar losun má fullyrða  núna að við getum orðið kolefnislaus í okkar rekstri í síðasta lagi árið 2030.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað hefur þegar verið gert til að draga úr kolefnislosun?

Eldsneytisnotkun er veigamesti umhverfisþáttur í starfsemi Isavia.  Langstærsti hluti eldsneytisnotkunar er vegna þjónustu og viðhalds á brautum flugvallarins. Vel er fylgst með notkun eldsneytis í starfseminni og unnið að því að draga úr þar sem hægt er. Isavia hefur prófað sig áfram með notkun repjuolíu á tæki og hafa þær prófanir gefið góða raun.

Hvað þarf að gera til að ná Net Zero takmarkinu 2030?

„Mestu áskoranir Isavia til þess að draga úr kolefnissporinu er að finna lausnir á því hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sérhæfðum tækjum flugvallarins,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „80% af kolefnisspori í starfsemi Isavia er vegna notkunar jarðeldsneytis á ökutæki í starfsemi Keflavíkurflugvallar.“ Aðgerðir snúa fyrst og fremst að endurnýjun bíla- og tækjaflota félagsins. Þar er um að ræða  um 140 tæki á Keflavíkurflugvelli og skynsamlegri nýtingu auðlinda þar sem sóun er haldið í lágmarki. 

Nú þegar eru til lausnir fyrir minni ökutæki sem hægt er að skipta út fyrir rafmagnstæki í dag með eðlilegri endurnýjun.  Það tekur lengri tíma að skipta út stærri tækjum en áætlanir gera ráð fyrir að það náist innan tilsetts tíma. Samhliða útskiptingu tækja er þörf fyrir innviðauppbyggingu til þess að þjóna flotanum með nýjum, umhverfisvænni orkugjöfum. „Þessu til viðbótar erum við að láta greina fýsileika þess að nota vetni á varaaflsstöðvar til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis og losna loks alfarið við það,“ segir Hrönn.

Samvinna við rekstraraðila á vellinum til framtíðar

"Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi í öllu sem við gerum og vinnum að framþróun og stöðugum umbótum í málaflokknum.  Við sýnum frumkvæði í  því að auka sjálfbærni í öllu flugvallarsamfélaginu og vinnum markvisst með viðskiptafélögum á Keflavíkurflugvelli að lausnum og sameiginlegum árangri,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir.

„Það er miklar breytingar til framtíðar að verða á því hvernig flugvellir starfa og það er að mörgu að huga.  Nauðsynlegt er að fylgjast vel með nýjungum og vinna saman að lausnum.“

Nánari upplýsingar um aðgerðir Isavia um umhverfismálum og samfélagsábyrgð má finna í Árs- og samfélagsskýrslum félagsins á vef Isavia.