Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla er í hæsta gæðaflokki
Föstudagur 27. desember 2019 kl. 07:24

Starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla er í hæsta gæðaflokki

Á haustmánuðum fór fram svokallað ytra mat á starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla í Vogum. Sótt var um matið til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, eins og reyndar hefur verið gert nokkur undanfarin ár en framkvæmd matsins er á hendi Menntamálastofnunar.

Nokkrir meginþættir eru metnir, þ.e. stjórnun, uppeldis- og menntastarf, leikskólabragur, foreldrasamstarf og innra mat. Undir hverjum matsflokki eru á bilinu tveir til sex matsþættir, samtals 21 matsþættir. Gefin er einkunn í hverjum þætti, og fær hver þáttur lit eftir því hversu góð niðurstaðan er. Hæsta einkunn gefur dökkgrænan lit, því næst kemur ljósgrænn, þá gulur og loks rauður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skilgreining á dökkgrænum lit er „flestir eða allir þættir sterkir, mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf“. Skilgreining á ljósgrænum matsþætti er „fleiri styrkleikar en veikleikar, gott verklag, flestir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi.“

„Til að gera langa sögu stutta þá var niðurstaðan í mati leikskólans okkar sú að nítján þættir fá hæstu einkunn (dökkgræna) og tveir þættir næsthæstu einkunn (ljósgræna). Enginn matsþáttur fær gula né rauða einkunn,“ segir í pistli sem Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, ritaði um árangurinn.

Kynning á niðurstöðunum fyrir starfsfólk leikskólans, fræðslunefnd og bæjarstjórn fór fram á dögunum. Í máli matsaðila kom fram að niðurstaðan væri einkar glæsileg og í raun án fordæma. Það heyri nánast til undantekninga að niðurstaða mats sé á þann veg að enginn reitur í matinu sé hvorki gulur né rauður, hvað þá að nær allir séu með hæstu einkunn.

„Ég vil nota tækifærið og óska öllu starfsfólki leikskólans til hamingju með þennan frábæra árangur, sem færir okkur heim sanninn um það svo ekki verður um villst að starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla er í hæsta gæðaflokki og með því besta sem þekkist á landinu. Frábær árangur og góður vitnisburður. Til hamingju öll,“ skrifar Ásgeir bæjarstjóri.