Standi í skilum eins og mögulegt er
Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkti bókun á síðasta fundi sínum í tengslum við fjármál og rekstur Suðurnesjabæjar í ljósi COVID-19. Á fundinum höfðu bæði bæjarstjóri og fjármálastjóri gert grein fyrir tillögu varðandi innheimtu fasteignagjalda af íbúðarhúsnæði.
„Sveigjanleiki verður í innheimtu á meðan áhrifa gætir af Covid-19 og eru íbúar hvattir til að setja sig í samband við sveitarfélagið sjái þeir fram á erfiðleika við að standa í skilum. Eftir sem áður eru gjaldendur hvattir til að standa í skilum eins og mögulegt er,“ segir í bókun bæjarráðs Suðurnesjabæjar.