Stálu bíl og keyrðu útaf
Í nótt var lögreglu tilkynnt um útafakstur á Reykjanesbraut skammt frá Fitjum og að engin væri á staðnum og bifreiðin mikið skemmd. Lögreglumenn gátu rakið fótspor frá bifreiðinni og handtóku þrjá pilta við Njarðarbraut sem ekki hafa öðlast ökuréttindi sökum aldurs. Piltarnir voru færðir til lögreglustöðvar vegna frekari rannsóknar á máli þessu. Piltarnir höfðu tekið bifreiðina ófrjálsri hendi.
Rétt fyrir klukkan 5 í morgun varð árekstur tveggja bifreiða á Reykjanesbraut (Vogastapa) en engin slys urðu á fólki. Önnur bifreiðin var óökufær og því flutt af vettvangi með dráttarbifreið.
Einn minniháttar árekstur varð í Njarðvík í gærdag og voru ökumenn aðstoðaðir við útfyllingu á tjónaformi.