Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stálpípuverksmiðjan: Lánadrottnar á leið til landsins
Mánudagur 17. nóvember 2003 kl. 10:56

Stálpípuverksmiðjan: Lánadrottnar á leið til landsins

Lánadrottnar International Pipe and Tube, sem ráðgera að reisa stálpípuverksmiðju í Helguvík, eru á leið til landsins innan tveggja vikna til að kynna sér aðstæður í Helguvík. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. „Maður hefur á tilfinningunni að nú sé þetta á lokastigi,“ sagði Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs Reykjanesbæjar um byggingu stálpípuverksmiðju í Helguvík í blaðinu.
Bandaríska fyrirtækið International Pipe and Tube hefur að undanförnu leitað lánsfjár vegna framkvæmdanna en bygging verksmiðjunnar kostar rúma sex milljarða króna. "Þeir eru í samskiptum við banka, bæði í Ameríku og Evrópu, þar á meðal hér. Fulltrúar lánardrottna munu innan tveggja vikna koma til landsins og kynna sér aðstæður," sagði Pétur Jóhannsson, framkvæmdastjóri atvinnu- og hafnasviðs Reykjanesbæjar. International Pipe and Tube hyggst reisa verksmiðjuna á 40.000 fermetra lóð sem úthlutað hefur verið í Helguvík.
"Lóðin verður tilbúin til afhendingar í endaðan febrúar og um svipað leyti, kannske fyrr, liggur ákvörðun lánardrottnanna fyrir. Það er búið að bjóða framkvæmdina út og bygging verksmiðjunnar getur hafist strax í byrjun mars á næsta ári," sagði Pétur. Bygging verksmiðjunnar tekur allt að 15 mánuði og skapast strax fjölmörg störf við bygginguna. Framleiðsla ætti að geta hafist í síðasta lagi í júní árið 2005. Reiknað er með að 200 manns starfi við verksmiðjuna, og að auki geta margfeldisáhrif skapað 200 til 300 þrjú hundruð störf til viðbótar.
Fregnir af stálpípuverksmiðju í Helguvík og 80 megavatta virkjunarframkvæmd á Reykjanesi, auka Suðurnesjamönnum bjartsýni, hvort tveggja skapar fjölmörg störf. Atvinnuleysi hefur verið viðvarandi á svæðinu og eru nú 327 skráðir atvinnulausir, 128 karlar og 199 konur.
Að óbreyttu fjölgar verulega í hópnum á næstu vikum en fyrir liggur að rúmlega 100 starfsmenn Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli fá uppsagnarbréf um mánaðamót. Fulltrúar verkalýðsfélaga á Suðurnesjum eiga samráðsfund með Varnarliðsmönnum vegna atvinnumálanna í dag en ekki er búist við að fundurinn breyti neinu um fyrirhugaðar uppsagnir á vellinum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024