Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stálpípuverksmiðja slegin af?
Mánudagur 19. desember 2005 kl. 11:01

Stálpípuverksmiðja slegin af?

Stálpípufyrirtækið International pipe and tubing mun ekki fá þá lóð í Helguvík sem þeir sóttust eftir og er vafasamt með framhaldið í þeim efnum.Lóðin sem þeim hafði verið úthlutað mun verða notuð í öðru skyni, m.a. vegna fyrirhugaðs álvers Centuri Aluminum.

Frestur IPT, sem hefur um þriggja ára skeið reynt að ljúka fjármögnun verksmiðjunnar, hjá fjárfestingafyrirtækinu sem þeir voru í samstarfi við rann út um síðustu mánaðarmót. Þar með þótti fulltrúum í atvinnu- og hafnarráði Reykjanesbæjar fullreynt að IPT nái ekki að ljúka fjármögnun og þótti því rétt að afturkalla lóðaúthlutun, enda hafi aðrir aðilar sýnt lóðinni mikinn áhuga.

Pétur Jóhannson, hafnarstjóri, staðfesti þetta í samtali við Víkurfréttir. „Þeir hafa endanlega misst af þessari lóð. Það er þó ekki útilokað að ef IPT finna peninga á næstunni að þeir fái aðra lóð í Helguvík.“

Pétur bætir því við að vissulega sé leiðinlegt að málinu ljúki svona, en þær lyktir setji ekki stórt strik í reikninginn í framtíðaráformum í Helguvík. „Þetta svæði mun nýtast í framtíðinni, enda veitir ekki af lóðinni vegna umsvifanna sem munu verða í Helguvík í framtíðinni. Þar mun t.d. verða uppskipunarsvæði fyrir væntanlegt álver og birgða- og gámasvæði.“

Það er annars að frétta af málefnum álversins að fulltrúar Centuri Aluminum ásamt ráðgjöfum þeirra funduðu með fulltrúum bæjarins fyrir skemmstu og hyggja á annan fund á janúar. Unnið verður áfram að afmörkun lóðar og frumskýrslu um umhverfismat.

Stjórn Atvinnu- og hafnarráðs samþykkti að fela hafnarstjóra að óska eftir að Helguvíkurhöfn fari í líkantilraun hjá Siglingastofnun í tengslum við fyrirhugaða framtíðarviðlegukanta í Helguvík í tengslum við álver.

VF-mynd: Frá undirritun samninga um byggingu stálpípuverksmiðju í Helguvík, sem fram fór á Ránni þann 24. maí árið 2002. Á myndinni eru Ellert Eiríksson, þáverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Barry Bernsten forstjóri IPT og Pétur Jóhansson hafnarstjóri sem skrifuðu undir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024