Stal viftu úr bókasafni
Karlmaður sem lagði leið sína á Bókasafn Reykjanesbæjar um helgina stal þaðan viftu, lögreglan á Suðurnesjum hafði skömmu síðar upp á honum á veitingahúsi í umdæminu. Í fórum hans fannst viftan og einnig fartölva sem grunur lék á að hann hefði fengið með ólögmætum hætti. Skýringar mannsins á því hvernig hann hefði eignast þessa muni voru mjög óskýrar og lögregla komst fljótlega að því að hvoru tveggja væri stolið. Viftunni og tölvunni var komið í réttar hendur.
Þá barst lögreglunni tilkynning um þjófnað á humri úr frystigámi í umdæminu, hengilás hafði verið klipptur sundur til að komast inn í gáminn. Ekki er ljóst hversu miklu magni var stolið en lögreglan rannsakar málið.