Stakk af frá árekstri og faldi sig og bifreið sína á verkstæði
Ökumaður sem ók í veg fyrir annan á mikilli ferð í Keflavík í vikunni, og olli þar með árekstri, stakk af og faldi sig og bifreið sína á verkstæði. Lögreglan á Suðurnesjum hafði upp á kauða og viðurkenndi hann að hafa stungið af og verið réttindalaus í þokkabót.
Annar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og endaði hún á ljósastaur og í blómabeði í Njarðvík.
Þá hafnaði bifreið utan vegar eftir að ökumaðurinn hafði mætt bifreið sem ekið var eftir Norðurljósavegi miðjum með háu ljósin á. Hann missti stjórn á bifreiðinni þegar hann sveigði henni til hliðar til að forða árekstri. Hún var mikið skemmd en ökumaðurinn slapp án meiðsla.
Fleiri óhöpp urðu í umferðinni í vikunni en engin alvarleg slys á fólki.