Stafnesvegur að verða óökufær vegna álags
Vegurinn út á Stafnes er farinn að láta verulega á sjá vegna mikillar umferðar eftir strand Wilson Muuga. Gríðarlegur fjöldi fólks fer í skoðunarferðir á strandstað, sérstaklega um helgar. Íbúi á Stafnesi taldi á einni klukkustund rétt um 200 bíla sem fóru um veginn dag einn fyrir skemmstu. Þá var einnig gríðarlegt álag á veginum vegna þungaflutninga sem fylgdu björgunaraðgerðunum.
„Vegurinn er hræðilegur og er nánast að verða óökufær. Það hefur brotnað svo mikið upp úr honum að maður verður oft að keyra í moldarflagi meðfram ónýtri olíumölinni. Það keyra fleiri hundruð bíla um veginn um helgar, mikið af jeppum og stærri bílum. Vegurinn þolir ekki þetta álag og þvi umhugsunarvert hvort sama fólkið þurfi að vera fara þarna aftur og aftur ,“ sagði íbúi á Stafnesi sem VF ræddi við.
Vitað er um tilvik þar sem íbúi á Stafnesi skemmdi dekk eftir að hafa vikið út í kant fyrir öðrum bíl.
Á meðfylgjandi myndum má glögglega sjá ástand vegarins.