Stærsta kosningamálið fyrirsjáanleg fjölgun íbúa í sveitarfélaginu
Jóngeir Hjörvar Hlinason, oddviti L-listans, lista fólksins
Kosið er til bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í Vogum.
Jóngeir Hjörvar Hlinason, oddviti L-listans, lista fólksins:
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Stærsta kosningamálið í hamingjusamasta sveitarfélagi landsins Vogum er líklega fyrirsjáanleg fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og hvernig eigi að taka á því. Líkur eru á að íbúasamsetning muni breytast frá því sem nú er og því þarf að gera sviðsmyndir um hugsanlega þróun sveitarfélagsin og hvaða viðbrögð bæjarfélagið þarf að grípa til að mæta þeim breytingunum.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Ég og samherjar mínir á L-listanum, lista fólksins sem stöndum hér að þessu framboði sem hópur ótengdur stjórnmálaflokkum á landsvísu. Helsta markmið L-listans er að vinna að hag íbúa í Vogum og gera gott mannlíf betra. Með stækkun bæjarins og fjölgun íbúa þarf að huga að stækkun leik- og grunnskóla. Skoða og meta þarf sérstaklega hvaða þýðingu breytingar á íbúasamsetningu hafa fyrir sveitarfélagið. Við viljum fullgilda barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Vogum sem felst m.a. í að námsgögn í grunnskóla verði án kostnaðar fyrir börnin. Við teljum að tekjutengingu afslátta fasteignagjalda fyrir tekjulága einstaklinga þurfi að hækka. Við viljum opna stjórnsýsluna með því að senda bæjarstjórnarfundi úr á netinu þannig að fleiri eigi þess kost að fylgjast með bæjarstjórnarfundum. Einnig viljum við skoða hvað er hægt að gera í uppbyggingu hafnarinnar í Vogum.
Við í L-listanum, lista fólksins óskum eftir umboði kjósenda í Vogum til að halda áfram að gera gott samfélag betra. Það er gert með að mæta á kjörstað og setja X við L.