Stærsta farþegavél heims á Keflavíkurflugvelli
Airbus A380, stærsta farþegavél heims, var við prófanir í stormviðrinu á Keflavíkurflugvelli í dag. Vélin kom hingað sérstaklega til að prófa lendingar og flugtak í sterkum hliðarvindi og þóttu veðurskilyrðin í dag hin ákjósanlegustu til þess en vindstyrkurinn var að jafnaði um 25 m/s.
Vélin er mikið ferlíki með farþegarými á tveimur hæðum og mun geta tekið um 850 farþega. Hún vegur 560 tonn fullhlaðin við flugtak og vænghafið er rétt um 80 metrar. Undir henni eru nokkur hjólasett eða alls 22 hjól. Reiknað er með að hún verði komin í notkun næsta haust ef áætlanir ganga eftir.
Bæði Boeing og Airbus hafa notað Keflavíkurflugvöll til prófana í sterkum hliðarvindi að sögn Björns Inga Knútssonar, flugvallarstjóra Keflavíkurflugvallar.
Sjáið video í Vefsjónvarpi Víkurfrétta frá lendingum í Keflavík.
Mynd til hliðar: Vélinni var beitt upp í sterkan vindinn í aðfluginu og kemur hér skáhallt inn til lendingar.
Neðri mynd: Hér sést annar vængurinn en vænghafi vélainnar er rétt tæpur 80 metrar. Slökkviliðsmaðurinn er ekki stór í samanburði við hreyflana, sem eru fjórir á Airbus A380
VF-myndir: Ellert Grétarsson.