Stærsta alíslenska bílaleigan fær viðurkenningu
Bílaleigan Geysir fyrst á Reykjanesi til að fá viðurkenningu Vakans.
„Við erum svakalega ánægð með hversu vel gekk og að vera fyrst á þessu svæði til að hljóta þessa viðurkenningu. Við hvetjum að sjálfsögðu aðra til þess að gera slíkt hið sama vegna þess að lærdómurinn af þessu er alveg rosalega mikill. Bara það að þora að horfast í augu við styrkleika og veikleika,“ segir Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis, fyrsta ferðaþjónustufyrirtækisins á Reykjanesi sem fær formlega viðurkenningu Vakans, sem er gæða- og umhverfisvottun ferðaþjónustunnar á Íslandi.
Vonandi sækja fleiri um
Þuríður Aradóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Reykjaness, afhendi vottunina fyrir hönd Ferðamálastofu. „Við erum afskaplega ánægð með að þessi vottun sé í höfn. Ég veit að fleiri fyrirtæki á Reykjanesi eru að vinna að þessari vottun og vonandi verður þetta til að hvetja þau til að klára ferlið og að fleiri aðilar sæki um,“ segir Þuríður.
Þuríður og Garðar með fána Vakans.
Stoltið snýst um íslenska bílaleigu
Yfir sumarið starfa hjá Bílaleigunni Geysi yfir 50 manns og heilsárs starfsmenn eru 20. Búið að reka fyritækið í núverandi mynd síðan 2003 en það á sögu til 1973 og kennitalan er síðan 1993. Margeir segir alla viðskiptavini Geysis koma erlendis frá og hann telji að með því að sýna fram á að fyrirtækið standist þessar kröfur þá sé það stimpill um að því sé treystandi. „Og við veitum þjónustu sem er í hæsta gæðaflokki. Við erum stærsta bílaleiga á landinu sem er ekki erlent vörumerki. Þá þurfum við einhvern svona stimpil til að sýna. Höfum haft okkar stolt í því að vera íslensk bílaleiga og eigum líklega einn nýjasta bílaflota á landinu,“ segir Margeir.“
Áskorun að viðhalda gæðavottuninni
Ganga þurfti í að redda ýmsum hlutum og Sigurbjörg Jónsdóttir, ný verkefnastjóri Bílaleigunnar Geysis, var ráðin sérstaklega til þess að koma gæðavottuninni í gegn. „Við fáum svo heimsókn einu sinni á ári þar sem fyrirtækið er tekið út og þá þarf að sýna fram á hvað er búið að gera, fundargerðir og annað, til að viðhalda gæðavottuninni,“ segir Sigurbjörg og bætir við að þau hjá Geysi stefni á að taka út alla umhverfisvottun líka. „Við erum byrjuð á því og stefnum á að vera með það í fínum málum næsta sumar.“
Stjórnendur Bílaleigunnar Geysis. Sigurbjörg er fyrir miðju og Margeir annar frá hægri.
Gott og hollt fyrir fyrirtækið
Margeir heldur því fram og það hafi mikið að gera með það að Sigurbjörg er menntuð kennari og hafi því góða hæfni í svona verkefni. „Það þurfti að fylla út eyðublöð og aðrar kröfur sem varð að verða við. Einnig að koma starfsfólki inn í þetta og þjálfa það í að vinna eftir því. Sigurbjörg búin að vera hér í sumar að vinna að þessu og allt starfsfólk virkjað með. Eitt sé að skrá sig í þetta og annað að standa undir því. Þetta er búið að ganga mjög vel. Við settum okkur markmið í maí að reyna að klára þetta fyrir árslok. En svo reyndist margt hér þegar til staðar sem var í lagi og um leið varð þetta að sjálfsskoðun þar sem við rákum okkur á það sem þurfti að bæta úr og allir verða að vera tilbúnir að róa bátnum. Slíkt er bara mjög hollt og gott fyrir fyrirtækið,“ segir Margeir að endingu.
VF/Olga Björt