Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stærri og fjölbreyttari Víkurfréttir
Fimmtudagur 14. apríl 2011 kl. 10:58

Stærri og fjölbreyttari Víkurfréttir

Víkurfréttir eru í breyttu formi frá og með deginum í dag. Blaðið er nú í stærra broti og á öðruvísi pappír. Breytingin er gerð út frá hagræðingarsjónarmiðum því með stærra blaðsíðubroti fáum við meira pláss sem við munum nýta til þess að koma að meira efni á síður blaðsins. Það er ekkert launungarmál að miklar breytingar hafa verið frá hruni og talsverður samdráttur í sölu auglýsinga en þær bera uppi rekstur VF útgáfunnar. Þannig hefur blaðsíðum fækkað frá góðærisárum.


Blaðið hefur verið prentað í þremur prentsmiðjum á rúmum þrjátíu árum. Fyrst í Grágás sem var eigandi blaðsins fyrstu tæp þrjú árin áður en núverandi eigendur tóku við, því næst í Stapaprenti og síðan frá árinu 1999 í Prentsmiðjunni Odda. Samstarfið var alls staðar gott og viljum við þakka það. Nú mun blaðið verða prentað í Landsprenti sem prentar mörg héraðsfréttablöð en einnig Morgunblaðið.


Með breytingunni vonumst við til að geta búið til enn fjölbreyttara blað og hvetjum Suðurnesjamenn til að vera í góðu sambandi hér eftir sem hingað til. Það hefur verið einn helsti styrkur Víkurfrétta og hjálpað til í öflugri fréttamennsku sem útgáfan sinnir í blaði og á vefnum. Víkurfréttir eru fyrir Suðurnesjamenn og vilja svæðinu vel í umfjöllun um menningu, íþróttir, atvinnulíf og flytja snarpar fréttir dag frá degi.


Á síðustu árum hefur lestur blaðsins tvisvar verið mældur í könnunum og í bæði skiptin mælst yfir 90% og þá er VF vefurinn einnig með gríðarmikinn lestur sem er mældur vikulega. Þar hefur vf.is verið meðal 25 mest sóttu vefja á landinu í nokkur ár. Það skiptir máli fyrir auglýsendur sem ná hvergi betur til Suðurnesjamanna en í gegnum Víkurfréttir, blað og vef.


Útgáfan fagnaði þrjátíu ára afmæli á síðasta ári og við getum því sagt að þessi breyting á blaðinu sé síðbúin afmælisgjöf til lesenda. Betra og enn fjölbreyttara blað í hverri viku en blaðið í dag er sérstaklega veglegt í tilefni þessara tímamóta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Páll Ketilsson, ritstjóri.