Stærð skjálfta þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun
Í kringum 1400 jarðskjálftar mældust síðasta sólahringinn
Í kringum 1400 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga á síðasta sólahring. Virkni jókst upp úr miðnætti og hafa sjö skjálftar mælst yfir 4 að stærð síðan þá. Stærsti skjálftinn mældist M4,8 að stærð kl: 00:46 rétt vestan við Þorbjörn og er það stærsti skjálfti síðan jarðskjálftahrinan hófst 25. október. Skjáfltar yfir 4 að stærð mældust á svæðinu frá Eldvörpum að svæðinu austan Sýlingarfells. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Samkvæmt GPS gögnum á miðnætti mældist enn landris á svæðinu. Verið er að yfirfara GPS gögnin í tengslum við skjálftavirknina í nótt. Ef miðað er við 27. október sem upphafsdag þenslunnar til dagsins í dag hefur land risið nokkuð jafnt þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst ólík á milli daga. Skjálftavirknin í nótt og í morgun er dæmi um þessa hviðukenndu skjálftavirkni sem má búast við á meðan að kvikusöfnun er í gangi. Það að nú mælist stærri skjálftar en áður á svæðinu, þarf ekki að þýða aukinn hraða á kvikusöfnun, segir í tilkynningunni.