Staðin að hnupli í Leifsstöð
Kona um fimmtugt var staðin að hnupli í 10-11 verslun í Leifsstöð fyrir fáeinum dögum. Um var að ræða lítilræði af matvöru, sem konan tók ófrjálsri hendi. Hún stóð svo við inngang brottfararmegin og gæddi sér á góssinu þegar lögreglu bar að. Hún gekkst við því að hafa tekið umræddan varning, en þar sem enginn hefði verið til að afgreiða sig hefði hún gengið út án þess að borga.
Hún kvaðst gjarnan vilja greiða fyrir matvælin, en vildi ekki fyrir nokkurn mun aftur inn í verslunina. Því varð úr að hún lét lögreglu hafa peninga, sem fór inn, greiddi skuld hennar, fékk kvittun, sem konan fékk í hendur og þar með var málinu lokið.