Staðan á húshitun í Grindavík nú aðgengileg á kortavefsjá
Nú er hægt að sjá í kortavefsjá Grindavíkur stöðuna á fasteignum bæjarins varðandi húshitun. Að svo stöddu eru þetta allar þær upplýsingar sem hægt er að nálgast, um stöðu mála.
Taka þarf upplýsingunum á kortavefsjánni með þeim fyrirvara að staðan getur breyst með litlum eða engum fyrirvara. Kortið var síðast uppfært síðdegis laugardaginn 20. janúar.
Kortavefsjáin verður uppfærð á hverjum degi fyrir klukkan 20:00 og geta þá bæjarbúar séð hvort einhverjar breytingar hafa orðið á þeirra fasteign.
Til að sjá stöðuna á fasteignum á kortavefsjánni þarf að smella hægra megin á kortavefsjánni og haka í „húshitun, staða“.
- Grænn punktur merkir að hitakerfi fasteignarinnar virki.
- Fjólublár punktur merkir að sett hafi verið af stað kynding með rafmagni.
- Enginn punktur eða punktur í öðrum lit merkir að ekki hefur verið staðfest að hiti sé kominn á fasteign.
Ef það kemur í ljós að tjón hefur orðið í fasteigninni mun viðbragðsaðili hafa samband við fyrsta tækifæri.
Enn er hægt að skila inn húslyklum í Þjónustumiðstöðina í Tollhúsinu sem er opin á milli 10 - 17 alla virka daga og í húsnæði Brunavarna á Suðurnesjum að Flugvöllum 33 í Reykjanesbæ.
Samkvæmt upplýsingum frá HS Veitum er rafveita bæjarins almennt í lagi í öllum hverfum en gert er ráð fyrir að ný loftlína sem tekin verður í gagnið í dag tryggi rafmagn í öllum bænum. Þó eru nokkrar heimtaugar skaddaðar eftir jarðhræringarnar.
Búið var að fara í um 900 heimili af um 1200 heimilum í Grindavík, laugardaginn 21. janúar.
Tvö tjón hafa verið staðfest vegna frostskemmda en miðað við aðstæður er ekki útilokað að fleiri tjón muni koma í ljós. Sveit pípulagnameistara og rafvirkja vinnur alla daga vikunnar í Grindavík.
Aðfaranótt sunnudags fór rafmagnið af Grindavík en komst á að nýju og gætu því einhver rafmagnskynding hafa dottið út.
Kortavefsjáin verður næst uppfært fyrir klukkan 20:00, mánudaginn 22. janúar.