Staða nemenda tryggð í nýjum skóla
Flugakademían gerir samning við Flugskóla Reykjavíkur
Flugskóli Reykjavíkur og Flugakademía Íslands hafa náð samkomulagi um að þeir fyrrnefndu taki að sér þjónustu við virka nemendur Flugakademíunnar. Flugakademía Íslands, sem er dótturfélag Keilis, miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs, mun í kjölfarið hætta rekstri.
Nemendur Flugakademíunnar hafa val um það hvort þeir haldi áfram námi sínu í Flugskóla Reykjavíkur eða sæki það annað en í kjölfar samkomulagsins tekur Flugskóli Reykjavíkur við af Flugakademíunni sem eini skólinn á Íslandi sem býður upp á samtvinnað nám til atvinnuflugs.
Flugakademía Íslands hefur glímt við langvarandi rekstrarvanda og stjórnendum félagsins verið ljóst að grípa þurfi til aðgerða svo tryggja megi nemendum áframhaldandi námsúrræði. Samkomulag við Flugskóla Reykjavíkur er fyrst og fremst stillt upp með hag nemenda í forgrunni.
Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur: „Flugskóli Reykjavíkur hefur undanfarin misseri markvisst unnið að því að auka námsframboð skólans og víkka út starfsemina. Í vor kynntum við tvær námsbrautir í atvinnuflugmannsnámi, bæði staðar- og fjarnám. Þeim var vel tekið og fóru vel af stað. Það samrýmist því vel okkar áformum að taka við nemendum frá Keili. Við hjá Flugskóla Reykjavíkur tökum þeim opnum örmum og hlökkum til að útskrifa nýja atvinnuflugmenn á þessum tímum grósku og tækifæra í okkar geira.“
Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis: „Það eru vonbrigði að þurfa að hætta rekstri félagsins. Það er þó ekkert launungarmál að rekstur Flugakademíunnar hefur verið gríðarlega krefjandi í áraraðir. Starfsfólk hefur unnið baki brotnu að því að tryggja öflugt nám í hæsta gæðaflokki og eiga mikið hrós skilið fyrir óeigingjörn störf, oft við erfiðar aðstæður. Það sem skiptir öllu máli í þessari stöðu eru nemendur – og sú afar jákvæða niðurstaða að geta upplýst nemendahóp Flugakademíu Íslands um að hægt verði að tryggja áframhaldandi nám þeirra til atvinnuflugs í góðum skóla á íslenskri grundu.“