Atnorth
Atnorth

Fréttir

Staða HS ágæt - næstu virkjunaráfangar í undirbúningi
Þriðjudagur 14. október 2008 kl. 11:08

Staða HS ágæt - næstu virkjunaráfangar í undirbúningi



Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir fjárhagslega stöðu fyrirtækisins ágæta í þeim mikla ólgusjó sem efnahagur landsins er í um þessar mundir. Hagnaður HS á fyrstu sex mánuðum ársins hafi verið tæpur milljarður. Til samanburðar var hagnaður fyrirtækisins um 3,5 milljarðar á síðasta ári.

Samkvæmt heimildum VF stendur HS frammi fyrir miklu gengistapi á árinu, eða sem nemur allt að 9 milljörðum króna. Júlíus var inntur eftir þessu:

„Í 6 mánaða uppgjörinu var gengistapið 4,2 milljarðar en framtíðar tekjuauki (afleiður) af raforkusölu til stóriðju var hærri vegna hækkunar Bandaríkjadollars og álverðs eða um 4,9 milljarðar. Samkvæmt þessu uppgjöri voru erlendar skuldir þá að jafnvirði 17,2 milljarðar (gengisvísitala 160) og síðan hoppar gengið upp og niður, vísitalan var 175 á föstudag, 200 í dag og hvað hún verður á morgun veit enginn. Vegna þess að stóriðjurafmagnið er selt í Bandaríkjadölum leiðir gengisfall hinsvegar til aukinna tekna í íslenskum krónum í framtíðinni, þegar lánin með áföllnu gengistapi koma til greiðslu, þannig að áhrifin eru mun minni en hjá margskonar annarri starfsemi,“ segir Júlíus.

Júlíus var einnig inntur eftir því hvernig útlitið væri með næstu virkjunaráform, s.s. vegna álvers í Helguvík og hvernig tekist hefði að fjármagna þau.

„Við erum að undirbúa næstu virkjunaráfanga og þó ferillin sé tímafrekur erum við bjartsýnir á að það gangi upp. Varðandi fjármögnun þá hefur þegar verið gengið frá lántöku upp á 20 milljónir evra vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Þar af voru greiddar út 10 milljónir evra í júlí en afgangurinn verður eftir framvindu framkvæmda.
Í vikunni verða væntanlega staðfestir samningar um kaup á túrbínu og öðrum búnaði fyrir að jafnvirði um 14 milljónir evra, þannig að vinna við verkefnið er á fullri ferð,“ segir Júlíus.
Varðandi frekari fjármögnun segir Júlíus ekki talið líklegt til árangurs að gera mikið í því nú um stundir vegna ástandsins.  „Ef við ætlum að búa áfram hér á landi þá hlýtur ástandið að breytast og þá verður farið af stað á nýjan leik. Ef ekki verður lögð áhersla í framtíðinni á gjaldeyrisskapandi starfsemi hér á landi þá verður útlitið dökkt og gagnvart lánastofnunum eru tekjur í erlendri mynt ákveðið öryggi sem þær meta mikils.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn