Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

SSS styður uppbyggingu álvers og iðnaðar í Helguvík
Þriðjudagur 9. október 2012 kl. 13:35

SSS styður uppbyggingu álvers og iðnaðar í Helguvík

Atvinnuleysi er hæst á landinu á Suðurnesjum og því mikilvægt að taka atvinnumálin föstum tökum. Á Suðurnesjum eru ógrynni tækifæra bæði fyrir stór sem lítil fyrirtæki. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi hvetjandi umgjörð fyrir atvinnuuppbyggingu og styðji þannig við atvinnusköpun í landinu, meðal annars með því að skatta- og lagaumhverfi sé stöðugt og hvetjandi. Þetta kemur fram í ályktun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um atvinnu- og samgöngumál. Fundurinn var haldinn um sl. helgi í Sandgerði.

Hluti af stuðningi við atvinnulífið er áframhaldandi uppbygging á samgöngum á svæðinu. Brýnt er að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og uppbyggingu Suðurstrandarvegar sem og tryggja vetrarþjónustu á þeim vegi. Ferðamannaiðnaður er vaxandi atvinnugrein og fjöldi ferðamanna eykst með hverju ári. Samhliða því er mikilvægt að tryggja öryggi þeirra sem og annarra með því að byggja upp göngu- og hjólreiðastíga meðfram Reykjanesbrautinni enda mun umferð bifreiða og hjólreiðamanna aukast næstu árin.

Aðalfundur S.S.S. telur mikilvægt að fiskihafnir komist aftur inn á samgönguáætlun enda eru þær hluti af samgöngukerfi landsins og styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Auk þess er mikilvægt að tryggja að hluti af veiðileyfagjaldinu skili sér til sveitarfélaga landsins, sérstaklega þeirra sem sjá um að þjónusta sjávarútveginn enda standa fæstar fiskihafnir landsins undir sínum rekstri. Veiðileyfagjaldið af Suðurnesjunum er um 2,2 – 2,5 milljarðar króna og því eðlilegt að hluti af því skili sér aftur til svæðisins.

Ekki hefur tekist að bregðast við því áfalli er Suðurnesin urðu fyrir er varnarliðið fór árið 2006 en þar með hurfu 1100 störf af svæðinu. Því er vandi Suðurnesjamanna dýpri og langvinnari en annarra landsvæða og krefst því kröftugri aðgerða í formi stuðnings við atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og menntun á svæðinu.

Aðalfundur SSS lýsir yfir miklum áhyggjum yfir þeim fjölda atvinnulausra sem falla munu út af atvinnuleysisskrá á næstu misserum og munu fara á framfæri sveitarfélaga ef engin önnur úrræði bjóðast. Mikilvægt er að ríkisvaldið bregðist við þessum vanda og velti honum ekki yfir á sveitarfélögin.

Eina varanlega lausnin er að skapa fleiri störf.  Aðalfundur S.S.S. lýsir yfir fullum stuðningi við og hefur miklar væntingar til uppbyggingar álvers og annars iðnaðar í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024