Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

SSS skorar á Alþingi að lýsa upp og breikka stofnvegi á Suðurnesjum
Mánudagur 11. september 2006 kl. 16:39

SSS skorar á Alþingi að lýsa upp og breikka stofnvegi á Suðurnesjum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn laugardaginn 9. september í Vogum, ítrekar við Alþingi að lokið verði við gerð Suðurstandavegar sem allra fyrst. Vegurinn er mikilvæg vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis og nauðsynleg tenging á milli atvinnusvæða.


Aðalfundurinn telur mikilvægt að ljúka gerð Ósabotnavegar þegar á næsta ári með bundnu slitlagi.


Aðalfundurinn skorar á Alþingi að lýsa upp og breikka stofnvegi á Reykjanesi s.s. Grindavíkurveg, Sandgerðisveg, Garðskagaveg og Garðveg. Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta.


Fundurinn leggur áherslu á samræmingu vegmerkja á Suðurnesjum.


Þá leggur aðalfundurinn áherslu á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar og frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fundurinn telur brýnt að mislæg gatnamót verði byggð samhliða framkvæmdum nú við væntanlegt Hæðahverfi í Reykjanesbæ og ráðstafanir gerðar vegna reiðvega og umferðar hjólreiðafólks.


Fundurinn skorar á yfirvöld að tryggja almenningssamgöngur á milli bæja á Suðurnesjum og til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega í ljósi breytinga á reglugerð hvað varðar leigubílaakstur sem þegar hefur komið niður á þjónustu við íbúa svæðisins.


Aðalfundurinn minnir ráðherra, þingmenn og Vegagerðina á að kynna sér forgangsröð verkefna í samgöngumálum á Reykjanesi sem kynnt er í áfangaskýrslu Samgöngunefndar SSS og lögð er fram sem sameiginleg niðurstaða sveitarstjórna á Suðurnesjum á síðasta ári.


Aðalfundurinn fagnar árangri í samgöngumálum á Reykjanesi. Sérstaklega er ástæða til að fagna fækkun slysa á Reykjanesbrautinni eftir að fyrsti hluti hennar var tvöfaldaður en mikilvægt er að framkvæmdir tengdar umferðaröryggismálum hafi forgang í hverju kjördæmi fyrir sig.


Samþykkt samhljóða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024