SSS mótmælir niðurskurði
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum mótmælir harðlega fyrirhuguðum tillögum um niðurskurð á grunnþjónustu í heilbrigðisþjónustu á Suðunesjum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2011 á að lækka framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um rúmar 400 milljónir. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi SSS í gær.
„Verði þetta niðurstaðan mun niðurskurðurinn leiða til þess að fæðingarþjónusta verður aflögð, almennar lyflækningar og þjónusta við krabbameinssjúklinga flyst til Reykjavíkur, endurhæfing mun að mestu leyti leggjast af og dregið verður úr líknandi meðferð. Þjónustu við aldraða skerðist einnig töluvertog slysa- og bráðaþjónusta mun flytjast til Reykjavíkur í meira mæli. Kemur þetta til viðbótar við þann niðurskurð sem átti sér stað í ár er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja lokaði skurðstofum sínum. Engin sparnaðarrök mæla með því að flytja umrædda nærþjónustu til höfuðborgarsvæðisins þegar sýnt hefur verið fram á, að þessir þættir eru hagkvæmar reknir af HSS en LSH.
Benda má á að framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir hafa hlutfallslega verið og eru enn lægri en til annarra heilbrigðisstofnana miðað við íbúafjölda og enn hefur ekki verið tekið mið af nálægð stofnunarinnar við Keflavíkurflugvöll í fjárveitingum til hennar. Stjórn S.S.S. skorar á þingmenn og ríkisstjórn Íslands að gæta jafnræðis og sanngirni í framlögum á fjárlögum.
Í stefnuræðu forsætisráðherra voru höfð skýr orð um vilja stjórnvalda til að starfa með íbúum Suðurnesja að lausnum á fjölþættum vanda af efnahagskreppu og atvinnuleysi. Hér er tækifæri til að láta athafnir fylgja orðum.
Stjórn S.S.S. treystir á þingmenn Suðurkjördæmis, þingheim allan og ríkisstjórn Íslands að koma í veg fyrir að niðurskurðartillögur þessar verði að veruleika enda hefur komið fram vilji þingmanna og ráðherra til þess að endurskoða umræddar tillögur,“ segir í bókun SSS.
---
VFmynd/elg - Frá mótmælastöðu við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á dögunum þar sem fyrirhuguðum niðurskurði á stofnuninni var mótmælt.