Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sr. Ólafur Oddur látinn - minningarstund í Keflavíkurkirkju kl. 18
Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 13:31

Sr. Ólafur Oddur látinn - minningarstund í Keflavíkurkirkju kl. 18

Sr. Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, lést í gær. Sr. Ólafur Oddur var 62 ára að aldri er hann dó. Hann fæddist í Reykjavík, 1. nóv. 1943, sonur hjónanna Jóns Ásgeirs Brynjólfssonar (1909 – 1981) og Kristínar Ólafsdóttur (1910-1993).

Hann varð stúdent frá MR 1964, og cand. theol. frá Háskóla Íslands 1970. Hann lagði stund á framhaldsnám í New York og lauk þaðan mastersprófi. Hann gegndi lögreglustörfum á sínum háskólaárum og var kennari í Langholtsskóla í Reykjavík í nokkur ár eða þar til hann var skipaður sóknarprestur í Keflavík 1975.

Á fyrstu árum sínum var hann um tíma stundakennari við skóla þar syðra. Í mörg ár var hann stundakennari við guðfræðideild HÍ og kenndi þar aðallega siðfræði, auk þess að vera prófdómari við deildina.

Þá gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna, bæði innan prófastsdæmisins og á vegum biskupsembættisins. Hann tók virkan þátt í þjóðmálaumræðu og eftir hann liggja margar greinar í blöðum og tímaritum. Hann var virkur félagi í Rotaryklúbb Keflavíkur.

Ólafur Oddur var giftur Eddu Björk Bogadóttur. Þau skildu 1996. Þau eignuðust þrjá syni, Birgi Örn, Ólaf Ragnar og Kristin Jón.

Minningarstund um Sr. Ólaf Odd verður í Keflavíkurkirkju í dag og hefst hún kl. 18:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024