Sr. Björn Sveinn óskar eftir lausn frá embætti
Sr. Björn Sveinn Björnsson sóknarprestur á Útskálum hefur óskað eftir lausn frá embætti frá 1. september næstkomandi. Af því tilefni mun sr. Björn kveðja söfnuðina á Hvalsnesi og Útskálum með guðsþjónustu næstkomandi sunnudag 7. júní. Guðsþjónusturnar verða í Hvalsneskirkju kl. 11 og í Útskálakirkju kl. 14. Sóknarnefndir Útskála- og Hvalsnessókna bjóða til kaffisamsætis kl. 15 í samkomuhúsinu í Garði að lokinni guðsþjónustu.
Sr. Björn hefur þjónað á Útskálum frá árinu 1998. Aðspurður sagði sr. Björn að hann héldi vestur um haf til Bandaríkjanna um næstu mánaðarmót og „næsta haust hygg ég á nám við háskóla í Kaliforníu. Ég kveð Suðurnesjamenn og þennan starfsvettvang með söknuði en fer þó enn ríkari af vinum, reynslu og dýrmætum minningum. Hér hef ég kynnst frábæru fólki sem hefur reynst mér eintaklega vel og vona ég að sem flestir sjái sér fært um að koma á sunndaginn,“ segir séra Björn Sveinn Björnsson í samtali við Víkurfréttir.