Spyr um söluna á Hitaveitu Suðurnesja
- og segir bæinn bregðast upplýsingaskyldu sinni
„Í kosningabaráttunni óskaði Miðflokkurinn eftir ákveðnum svörum við söluna á Hitaveitu Suðurnesja. Fátt var um skýr og greinargóð svör. Þarna tel ég að sveitarfélagið hafi verið að bregðast upplýsingaskyldu sinni,“ sagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ, í bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Margrét segir í bókunni að hún neyðist því til að leggja fram nýja fyrirspurn á sama grunni þegar uppskiptingu var lokið árið 2009. Í bókuninni eru svo fimmtán spurningar til bæjaryfirvalda um málið og óskað eftir skýrum og greinargóðum svörum við þeim.
1. Hvaða veð og veðréttir lágu að baki skuldabréfinu?
2. Hvert var nafnvirði hvers hlutar?
3. Hvert var verðmat hvers hlutar við greiðslu skuldabréfsins?
4. Hverjir voru útgefendur skuldabréfsins?
5. Hverjir voru skilmálar skuldabréfsins tæmandi taldir?
6. Til hvers langs tíma var bréfið?
7. Mátti greiða aukainnborganir og þá með eða án viðbótarkostnaðar?
8. Hvaða vaxtakjör voru á bréfinu?
9. Frá hvaða degi voru vextir reiknaðir?
10. Voru vextirnir fastir vextir eða breytilegir?
11. Hver var vaxtaprósentan?
12. Var bréfið verðtryggt?
13. Var bréfið gengistryggt og ef svo var, í hvaða mynt?
14. Eru endurgreiðslur af bréfinu með einhverjum hætti afkomutengdar?
15. Árið 2011 var skuldabréfið selt til fjárfestingarsjóðsins ORK. Hvert er markaðsverðmæti þess hinn 1. janúar 2019?