Spurt um heilindi heilbrigðisráðherra
Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi A-lista í Reykjanesbæ, segir að forsvarsmönnum Reykjanesbæjar hefði átt að vera ljósar breyttar áherslur heilbrigðisráðuneytisins um byggingu hjúkrunarrýma þegar í desember árið 2005 en þær hafi þá verið kynntar fulltrúum Suðurnesja á sérstökum fundi. Tafir á uppbyggingu hjúkrunarrýmis á Nesvöllum sé því ekki hægt að rekja til ráðuneytisins, heldur sé seinkunin eingöngu af fjárhagslegum ástæðum. Þetta kemur fram í bókun sem Eysteinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ nú í vikunni þegar öldrunarmálin voru til umræðu.
Athygli vekur að Guðbrandur Einarsson, sem einnig er bæjarfulltrúi A-lista, snupraði Eystein í umræðunni.
Fram hefur komið að breyta þarf teikningum og endurhanna hjúkrunarrýmið til samræmis við breyttar áherslur ráðuneytisins og af þeim sökum kunna framkvæmdir við það að tefjast um tvö til þrjú ár.
Í bókun Eysteins segir að seinkun á byggingu 30 nýrra hjúkrunarrýma á Nesvöllum sé ekki vegna breyttar hugmyndafræði, heldur sé hún eingöngu af fjárhagslegum ástæðum, þ.e. með hvaða hætti fjármagni sé veitt af hálfu hins opinbera til uppbyggingar nýrra hjúkrunarrýma. Er í bókuninni vísað í samkomulag við Félag eldri borgara sem flýtt hafi fyrir fjárveitingum.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, sagði að í bókun Eysteins væri sett fram fullyrðing sem hann vildi ekki svara með annarri bókun þar sem það væri málinu ekki til framdráttar. Hann gat þess að vilji stæði til að finna þá leið sem heilbrigðisráðuneytinu væri þóknanleg svo hægt væru að fara af stað með verkefnið.
„Við erum í sérstakri stöðu hér í bæjarstjórn þegar við förum að ræða málefni af þessu tagi. Ég er samstarfsaðili Framsóknarflokks í A-lista í bæjarstjórn og sjálfstæðismenn eru samstarfsaðili Framsóknarflokks á landsvísu,“ sagði Guðbrandur Einarsson, fulltrúi Samfylkingar í A-listanum.
„Þessi vandi sem við erum að glíma við núna er vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur notað Framkvæmdasjóð aldraðra í önnur verkefni heldur en honum var ætlað og skattborgarar hafa greitt til. Þessir tveir samstarfsflokkar í ríkisstjórn ákváðu að nota þá peningana í annað en uppbyggingu á hjúkrunarheimilum,“ sagði Guðbrandur og bætti við: „Um er að ræða milljarða og ég efast um lögmæti þessara ákvarðana. Þetta er mjög vafasöm stjórnsýsla, svo ekki sé meira sagt.“
Og Guðbrandur sagði ennfremur: „Út af þessari bókun Eysteins um tímasetningar, í desember 2005, þá ætla ég ekki ad draga þær í efa en ég spyr af því að það voru nú sveitarstjórnarkosningar í maí síðastliðnum: Hvaða upplýsingar var þá verið að veita okkur? Hvaða loforð var heilbrigðisráðherra þá að koma með suður með sjó þegar hann fullyrti á fundi með okkur í A-listanum að við stæðum, ef ekki fremst í biðröðinni, þá mjög framarlega, bæði vegna öldrunar- og hjúkrunarrýmis hér á svæðinu og síðan í ljósi þess atvinnuástands sem hér væri að skapast?
Þegar Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, var að nefna þetta í maí 2006, vitandi um það sem fram hafði farið í desember 2005, þá spyr ég um heilindi manna í þessari pólitík.“
Mynd: Teikning af Nesvöllum